A A A

Annáll 1980-1990

Annáll Tálknafjarðarhrepps á árunum 1980-1990.

Almennt má segja að áratugurinn 1980 - 1990 hafi verið áratugur framfara og uppbyggingar í Tálknafirði, staðurinn breytti um svip, fólki fjölgaði og atvinnutækifærum fjölgaði. Útlit staðarins batnaði mjög og snyrtilegt umhverfi húsa og fallegir garðar í Tálknafirði gladdi augu heimamanna jafnt sem gesta. Mannlíf var gott á staðnum og ungt og bjartsýnt fólk settist að í Tálknafirði, tilbúið að leggja hönd á plóg við uppbyggingu staðarins öllum til hagsbóta. Hér á eftir er leitast við að draga saman upplýsingar um það helsta sem gerðist þennan áratug í Tálknafirði. 


Stjórn og starfsemi sveitarfélagsins og íbúafjöldi.


Á þessum áratug urðu þær breytingar helstar í stjórnun og umsvifum sveitarfélagsins í Tálknafirði sem hér segir: Árið 1980 keypti sveitarfélagið skemmu þá sem Fákur hf átti og var skemma þessi notuð fyrir áhaldahús hreppsins auk þess sem slökkvistöðin var þar til húsa og björgunarsveitin fékk þar einnig aðstöðu. Á árinu 1982 var síðan innréttað þar skrifstofuherbergi til afnota fyrir sveitarfélagið og var fyrsti fundur hreppsnefndar haldinn þar 17.04.1983. Árið 1986 var síðan útbúin aðstaða fyrir heilsugæslu og læknisaðstoð í húsinu og kom læknir á hálfsmánaðarfresti og sinnti Tálknfirðingum. Þótti þetta mikil bót í þjónustu heilsugæslunnar og mæltist vel fyrir. Árið 1989 var í fyrsta sinn ráðinn starfsmaður í öldrunarþjónustu í Tálknafirði og var Kristín Ólafsdóttir ráðin í það starf. 

Nýtt aðalskipulag var samþykkt 1985 og skildi það gilda til ársins 2005.

Hreppsnefndarkosningar voru 1982 og voru tveir listar í framboði I listi og H listi. Af I lista voru kjörnir Sævar Herbertsson, Sigurður Friðriksson og Höskuldur Davíðsson og af H lista þeir Björgvin Sigurbjörnsson og Jón H. Gíslason. Oddviti var kjörinn Sigurður Friðriksson og varaoddviti Helga Jónasdóttir. 
Þetta ár urðu breytingar á sveitarstjórnarlögum og var minni sveitarfélögum leyft að ráða til sín sveitarstjóra. Fyrsti sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps var Höskuldur Davíðsson og gegndi hann starfinu í tvö ár en haustið 1984 var Brynjólfur Gíslason ráðinn sveitarstjóri og gegndi hann því starfi til ársins 1988. Þá tók við Arnar Grétar Pálsson og hann var sveitarstjóri til 1990 þegar Brynjólfur var ráðinn aftur til starfa sem sveitarstjóri. Miklar mannabreytingar urðu í sveitarstjórn á þessu kjörtímabili og fluttu þeir Sævar og Höskuldur brott en við lok kjörtímabilsins sátu auk Sigurðar þau Helga Jónasdóttir og Guðjón Indriðason í hreppsnefnd fyrir I lista. 

Hreppsnefndarkosningar voru á árinu 1986 og þá voru boðnir fram D listi sjálfstæðisfélagsins og O listi óháðra. Kjöri náðu þau Guðjón Indriðason, Jón Bjarnason og Sigrún Guðlaugsdóttir fyrir D lista og Ævar Jónasson og Heiðar Jóhannsson fyrir O lista. Oddviti var kjörinn Guðjón Indriðason og varaoddviti Jón Bjarnason. Sviptingar urðu einnig í þessari hreppsnefnd því meirihluti D lista klofnaði vegna ágreinings um sveitarstjórann Arnar Grétar Pálsson og myndaði Guðjón Indriðason meirihluta með þeim O lista mönnum um áramótin 1989-1990. 
Hreppsnefndarkosningar voru vorið 1990 og þá voru kjörin af D lista sjálfstæðisfélagsins þau Björgvin Sigurjónsson, Jörgína Jónsdóttir og Þór Magnússon og af H lista óháðra þeir Steindór Ögmundsson og Heiðar Jóhannsson. Oddviti var kjörinn Björgvin Sigurjónsson og varaoddviti Jörgína E. Jónsdóttir. 

Íbúafjöldi í Tálknafjarðarhreppi á þessum árum var tiltölulega jafn, 01.12.1980 voru 190 karlar og 150 konur alls 340 íbúar, þeim hefur fjölgað um 25 árið 1981 en þá eru hér 365 íbúar, 1982 eru 368 íbúar en fækkar í 349 árið 1983. Á árinu 1984 fjölgar aftur og þá eru hér 371 íbúi, 1985 og 1986 voru íbúarnir 364, 1987 voru íbúarnir flestir en þá fór íbúatalan upp í 379 manns, 1988 voru 374 íbúar, 365 manns 1989 og árið 1990 var íbúafjöldinn 371 eða 31 fleiri en 1980. 


Fræðslumál.

Í Grunnskóla Tálknafjarðar voru skólaárið 1980-1981 62 nemendur og 5 kennarar í fullu starfi auk eins stundakennara. Sami fjöldi kennara var árið á eftir en þá fækkaði nemendum í 54, þeim fjölgaði um tvo á næsta ári, fækkaði aftur um tvo en fjölgaði í 59 skólaárið 1984-85. Næsta ár á eftir voru nemendur orðnir 67 en 63 árið þar á eftir og þá eru kennarar 4 í fullu starfi en 6 stundakennarar. 1987-1988 voru kennarar 4 í fullu starfi og einn stundakennari en nemendur 68. Þeim fækkaði um 10 veturinn 1988-89 og skólaárið 1989- 1990 voru nemendur 62 og kennarar í fullu starfi 6. 


Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins.

Miklar framkvæmdir voru á vegum sveitarfélagsins á þessum árum, hæst bar þar byggingu íþrótta og félagsheimilis sem stóð yfir allan áratuginn og var sveitarfélaginu erfið fjárhagslega séð. 

Einnig var mikið verk unnið við lagningu bundins slitlags á allar götur í kauptúninu, uppsetningu ljósastaura og einnig voru gangstéttir steyptar. Verki þessu var að mestu lokið á árinu 1988. 

Hafnarmannvirki voru mikið bætt á þessum áratug, mælt var fyrir stækkun hafnaraðstöðunnar á árinu 1980 og 1982 var keyrður út garður framan við frystihúsið og vestan við bryggjuna sem fyrir var. Árið eftir var rekið niður stálþil alls 83 m. og fyllt í það og steyptur kantur auk þess sem dýpkað var framan við þilið. Árið 1985 var steypt þekja á allan hafnarbakkann, reist ljósamastur og löndunarkrani og lýsing. 1987 var byggð trébryggja austanvert á hafnargarðinn í stað ónýtrar trébryggju sem þar var og steypt tengibraut á hafnarsvæðið. Sumarið 1988 var byggður lítill grjótgarður í smábátahöfn sem haldið var áfram með sumarið 1989 auk þess sem settur var upp löndunarkrani. Árið 1990 voru smíðaðar þrjár flotbryggjueiningar og smábátahöfnin dýpkuð. Mikil nauðsyn var á þessum framkvæmdum þar sem smábátum hafði fjölgað mikið síðustu árin. 

Mikið átak var gert í sorpmálum á þessum tíma, 1982 var endurnýjaður sorpbrennsluofn úr járni í Hrafnadal þar sem húsasorpi var brennt. Árið 1984 tók Tálknafjarðarhreppur við allri sorphirðu af einstaklingum sem sinntu því áður og 1988 var síðan steyptur ofn í Hrafnadal og aðstaða löguð til þar. Hreinsunardagar voru teknir upp þar sem íbúum gafst kostur á að losna við rusl af lóðum sínum og unglingar voru ráðnar í vinnu á sumrin við að fegra sveitarfélagið sem tók miklum breytingum til batnaðar útlitslega séð á þessum árum. 

Sundlaugin var lengd í 25 metra árið 1987 og lagfært umhverfi hennar, búningsklefar og varðaraðstaða voru í innsta hluta íþróttahússins. Árið 1989 var lokið frágangi á tjaldstæði við sundlaugina og var sett þar upp góð aðstaða fyrir gesti. 

Dagheimilið Vindheimar var stækkað á árunum 1986-88 og lögðu sjálfboðaliðar fram mikla vinnu við það auk þess sem Sigurfljóð Ólafsdóttir frá Vindheimum gaf peningaupphæð til byggingarinnar. 

Á árinu 1988 var tekin ákvörðun um að byggja tvær kaupleiguíbúðir á vegum sveitarfélagsins og var fjármögnun þeirra í félagslega íbúðarkerfinu. Eik hf byggði þessar íbúðir og voru þær tilbúnar til afhendingar í byrjun árs 1990. 


Aðrar framkvæmdir.

Byggð var skemma á hafnarbakkanum þar sem afgreiðsla Ríkisskipa hafði aðstöðu og Sigmundur Hávarðarson byggði húsnæði undir rafverkstæði sitt sem hann svo seinna breytti í leiktækjasal. Sigmundur fékk síðan vínveitingaleyfi í maí 1990 og rak veitingastaðinn Flóann í þessu húsnæði fram í október en hætti þá rekstri. 
Hraðfrystihús Tálknafjarðar byggði frysti við fiskvinnsluhús sitt í byrjun áratugarins og gjörbreytti það aðstöðu þess til geymslu á frosnum fiski. 
Einnig stækkaði Þórsberg húsnæði sitt til muna og bætti þar alla vinnuaðstöðu. 
Byggt var við húsnæði Vélsmiðju Tálknafjarðar sem skemmdist í bruna 1981 og Ása Jónsdóttir byggði húsnæði fyrir bókhaldsstofu sína árið 1987. 
Minna var byggt af íbúðarhúsnæði á þessum árum en á árunum á undan en lokið var við flest þeirra húsa sem byrjað hafði verið á þá og flutt í þau flest. 
Töluverðar vegaframkvæmdir voru í Tálknafirði sem framkvæmdar voru af Vegagerð ríkisins og munaði þar mestu um nýja brú á Keldeyri 1982, lagningu bundins slitlags yfir Mikladal til Patreksfjarðar árið 1984 og áfram út með Tálknafirði út í þorp. Einnig var lagt bundið slitlag út að sundlaug. 


Atvinnumál.

Laxeldismál voru ofarlega á baugi í Tálknafirði á þessum áratug, 1984 stofnaði Magnús Kr. Guðmundsson laxeldisfyrirtækið Þórslax hf og starfrækti það laxeldi á Gileyri og í Botni. Árið 1987 var stofnað fyrirtækið Sveinseyrarlax hf af Birnu Jónsdóttur og manni hennar Hannesi Bjarnasyni og fleirum og var reist laxeldisstöð á Sveinseyri. Einnig var starfrækt laxeldisstöðin Lax í Norður-Botni um tíma og Bárður Árnason frá Patreksfirði var með laxeldi á Búðeyri. 
Hraðfrystihús Tálknafjarðar gerði út togarann Tálknfirðing allan áratuginn og var aflinn að mestu verkaður heima fyrir. Þórsberg gerði út bátana Jón Júlí og Núp sem var seldur eftir fá ár en í hans stað var keypt skipið María Júlía og einnig gerði Þórsberg út bátinn Mána um tíma og var aflinn af þessum bátum verkaður í saltfisk. Jukust umsvif fyrirtækisins mikið á þessum áratug og í lok hans hóf Þórsberg útgerð á smábátum, sex tonna trillum sem þá voru utan kvóta og annarra sóknarmarka. 
Fyrsti báturinn var Otur sem keyptur var 1990 en fleiri bátar voru keyptir á næstu árum. 

Einnig fjölgaði mjög trillum í einkaeign, í byrjun áratugarins voru 3-4 slíkar gerðar út frá Tálknafirði en 1987 komu 2-3 í viðbót og fleiri bættust við á næstu árum og lætur nærri að 1990 hafi trillurnar verið komnar yfir tíu sem gerðar voru út frá Tálknafirði. 

Einnig voru starfrækt um tíma fyrirtækin Kópavík og Miðvík sem verkuðu fisk í salt og höfðu oftast nokkra menn í vinnu. Afli sem kom á land í Tálknafirði var á bilinu 6.000 til 6.700 tonn á árunum 1980-1987, mest var landað á árunum 1988 og 89 eða milli 7.200 og 7.300 tonn en minnkaði síðan í 5.137 tonn árið 1990. 

Laxeldisfyrirtækin höfðu einnig töluvert af fólki í vinnu og einnig var Trésmiðjan Eik með marga smiði í vinnu við ýmis verk. 

Verslun breyttist nokkuð á þessum áratug því Kaupfélag Tálknafjarðar hætti rekstri í byrjun október 1983 og við tók Kaupfélag Vestur-Barðstrendinga sem leigði hús og tæki K T og rak þar verslun fram í apríl 1986 en lokaði þá vegna gjaldþrots. Þá keypti Bjarni Kjartansson húsnæðið og rak þar Bjarnabúð um nokkurra ára skeið. Eyrasparisjóður á Patreksfirði opnaði afgreiðslu í Tálknafirði í desember 1986 og hafði sú starfsemi aðsetur sitt í húsi Bjarnabúðar. 


Veðurfar og ýmsir atburðir.

Veðurfar þennan áratug var með erfiðara móti hvað vetrartíð snerti og óvenju snjóþungir vetur settu svip sinn á tíðarfarið. Í febrúar 1981 gekk mikið fárviðri yfir með ófærð og rafmagnsleysi og haustið 1981 gekk einnig óvenju snemma í garð því í byrjun september var Hálfdán ófær fólksbílum vegna snjóa og í byrjun október var allt hvítt af snjó í byggð. 
Veturinn 1981 - 82 var mjög snjóþungur og tíð erfið og það sama gerðist veturinn eftir og eru þessir tveir vetur sennilega þeir snjóþyngstu sem komið hafa um langt skeið í Tálknafirði. Einnig var veturinn 1989 - 90 snjóþungur og kostnaður við snjómokstur þá aldrei verið meiri. 
Einnig höfðu Tálknfirðingar miklar áhyggjur af rafmagnsmálum sínum þar sem varaaflstöðin á Tálknafirði var 1981 aðeins 420 kw og annaði engan veginn rafmagnsþörf þorpsins. Má geta þess að í febrúar 1989 var rafmagnslaust í 3 ½ sólarhring og hafði það mikil áhrif á alla þætti mannlífs í þorpinu. Enn eru vandræði í rafmagnsmálum Tálknfirðinga á árinu 2000 þegar þessi orð eru rituð og varaaflsstöðin sú sama þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um úrbætur þar að lútandi. 

Árið 1983 var lokið við að koma upp sjálfvirkum síma á öllum bæjum í Tálknafirði. 

Ekki er getið um alvarleg slys í Tálknafirði á þessum árum en mikið tjón varð í eldsvoða í maí 1981 þegar kviknaði í Vélsmiðju Tálknafjarðar og skemmdist húsnæði og tæki mikið. Í mars 1981 fórst grænlenskur rækjutogari við Blakk og með honum nokkrir menn. Í janúar 1983 urðu snjóflóð á Patreksfirði fjórum að bana og fóru Tálknfirðingar til aðstoðar við björgun úr flóðunum. 

Árið 1984 barst Tálknfirðingum erindi þess efnis að skera bæri niður allt fé í sýslunni vegna riðusmits, var erindi þessu hafnað af heimamönnum en málið tók nýja stefnu í mars 1985 er þyrla Landhelgisgæslunnar og Víkingasveitin í Reykjavík komu vestur og skutu af færi 28 kindur í Tálkna. Vakti málið mikla andstöðu heimamanna og mótmælti hreppsnefnd harðlega þessari aðgerð en niðurskurður á sauðfé Tálknfirðinga var aldrei framkvæmdur þar sem ekki fannst riðusmit á neinum bæ í firðinum. 

Árið 1989 var æskulýðsmótið Líf og fjör haldið á Tálknafirði og tókst framkvæmd þess að mestu vel en vont veður setti þó mark sitt á lokakvöld hátíðarinnar. 


Lesendur þessa pistils eru beðnir að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við undirritaða ef þeir telja að ekki sé farið rétt með einhver atriði, athugasemdir sendist til: liljam@centrum.is eða í pósti. 
Samantekt á haustdögum 2000. 
Lilja Magnúsdóttir, leiðsögumaður, Tálknafirði.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón