Óbyggðanefnd skoðar Barðastrandasýslur
Óbyggðanefnd hefur upplýst Tálknafjarðarhrepp um fyrirhugaða meðferð nefndarinnar á Barðastrandasýslum og óskað eftir samstarfi um gagnaöflun.
Hlutverk Óbyggðanefndar er þríþætt, í fyrsta lagi að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, í öðru lagi að skera út um mörk þess hluta þjóðalendu sem nýttur er sem afréttur og í þriðja lagi að úrskurða um eignaréttindi innan þjóðlendna.
Landinu hefur verið skipt upp í sextán svæði og nú er komið að Barðastrandasýslum sem er fjórtánda svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.
Nálgast má yfirlitskort um stöðu þjóðlendumála á vefsíðu óbyggðanefndar.
Verklagið er með þeim hætti að nú hefur nefndin óskað eftir að fjármála- og efnahagsráðherra lýsi kröfum ríkisins á þjóðlendur á svæðinu, frestur ráðherrans var til 15. febrúar en hefur nú verið framlengdur til 15. mars. Þegar þær kröfur hafa verið lagðar fram verður skorað á þá sem telja til eignaréttinda eða annar réttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa körfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan tiltekins frests.
Landeigendur í Tálknafjarðarhreppi eru því hvattir til að fylgjast vel með störfum Óbyggðanefndar næstu mánuði og grípa til varna ef þess gerist þörf.
Bryndís Sigurðardóttir
sveitarstjóri
Óbyggðanefnd yfirlitskort svæði 10C (.pdf)