A A A

Velkominn í vinahópinn, Ögmundur

„Við bjóðum ráðherrann hjartanlega velkominn í vinahópinn okkar enda vita allir sannir vinir Vestfjarða að bið eftir láglendisvegi tefur frekari atvinnuuppbyggingu á svæðinu, skerðir lífsgæði íbúanna og getur hreinlega orðið til þess að byggð leggist af. Vonandi hafa aðrir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn sama skilning á aðstæðum okkar og innanríkisráðherra.“

 

Þetta segja Andrea Björnsdóttir, oddviti Reykhólahrepps, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, í grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin er þannig í heild:

 

Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum sendu Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra skýr skilaboð á opnum fundi í Bjarkalundi hinn 19. september síðastliðinn. Þar kynnti hann tillögur sínar að „vegabótum“ í Gufudalssveit. Skilaboðin voru enn skýrari á fundi sem ráðherra hélt á Patreksfirði daginn eftir. Þar gengu um 600 manns af fundi og lýstu þar með yfir megnri óánægju sinni með tillöguna.

 

Íbúum svæðisins sveið að í tillögum ráðherra voru engar vegabætur sem orð er á gerandi. Innanríkisráðherra lagði til að endurbyggja ætti erfiða hálendisvegi um Hjallaháls og Ódrjúgsháls og áfram yrði ekið eftir hlykkjóttum og bröttum fjallvegum. Tillagan kjarnaðist um lagfæringar á fjallvegi en ekki framtíðarlausn fyrir íbúa suðurfjarðanna, eins og gert var ráð fyrir í vegáætlun.

 

Viðnám Vestfirðinga bar sannarlega árangur, því í grein sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 27. mars segir Ögmundur: „... eftir hin afgerandi viðbrögð sem tillögur mínar fengu á Vestfjörðum ákvað ég að endurskoða afstöðu mína“.

 

Skilaboð íbúanna til ráðherrans voru að láglendisvegur væri eina lausnin í samgöngumálum svæðisins. Þetta sjónarmið var ríkjandi í málflutningi sveitarstjórnarmanna á svæðinu og um þá segir ráðherrann í sömu grein: „Þeir vilja að við könnum nánar möguleika á láglendisvegi ... Nákvæmlega það erum við að gera.“

 

Við bjóðum ráðherrann hjartanlega velkominn í vinahópinn okkar enda vita allir sannir vinir Vestfjarða að bið eftir láglendisvegi tefur frekari atvinnuuppbyggingu á svæðinu, skerðir lífsgæði íbúanna og getur hreinlega orðið til þess að byggð leggist af. Vonandi hafa aðrir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn sama skilning á aðstæðum okkar og innanríkisráðherra.

 

Láglendisvegur um Gufudalssveit, sem leggur af erfiða fjallvegi um Hjallaháls og Ódrjúgsháls, hefur verið á áætlun Vegagerðarinnar í 8 ár. Vegna deilna um vegstæðið hefur þessi sjálfsagða vegabót tafist fram úr hófi og enn bíðum við nýrra tillagna, sem ekkert virðist bóla á.

 

Nú væntum við þess að okkar kæri vinur, Ögmundur, sjái til þess að málið fái algeran forgang, og viðunandi lausn fáist sem fyrst og framkvæmdir geti hafist strax og kostur er. Við erum búin að bíða allt of lengi eftir sjálfsögðum vegabótum.

Tekið af reykholar.is

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón