A A A

Upplýsingar vegna greiningar á skæðri fuglaflensu á Íslandi í apríl 2022

Samkvæmt ákvæðum 7. gr laga nr 55/2013 um velferð dýra um hjálparskyldu (https://www.althingi.is/lagas/152a/2013055.html) er skilgreint að þeim sem verði varir við sært eða sjúkt dýr eða það sé bjargarlaust að öðru leyti, beri að veita dýrinu umönnun eftir föngum. Sé um villt (og hálfvillt) dýr að ræða er sveitarfélagi skylt að sjá til þess að gripið sé til aðgerða, að koma dýrinu til hjálpar eða aflífa.

Ef vart verður við veika ósjálfbjarga fugla í nærumhverfi manna er möguleiki á að fuglinn sé veikur vegna smits af fuglaflensuveirunni. Þó litlar líkur séu taldar á smiti yfir í mannfólk eða önnur dýr þá mælir Matvælastofnun með að fyllstu varúðar og smitgátar sé gætt. Ekki skal handleika fugla sem mögulega eru taldir vera smitaðir af fuglaflensu, án tilskilins hlífðarbúnaðar. Almenningi er því ráðið frá að handleika slíka veika fugla, en heldur beina erindi sínu til sveitarfélags, sem svo þarf að sjá til þess að gripið sé til aðgerða út frá dýravelferðarsjónarmiðum. Mælt er með að fá dýralækni til að aflífa fuglinn á staðnum með svæfilyfi. Vaktsími víðsvegar um landið sést á heimasíðu Matvælastofnunar
(https://www.mast.is/is/baendur/lyfja-og-sjukdomaskraning/dyralaeknar-a-vakt). Ekki er ráðlagt að skjóta slíka fugla, rota eða skera m.t.t. smitvarna. Utan skrifstofutíma sveitarfélaga ættu erindi að beinast til lögreglu, sem gæti þá sett málin í sama farveg.

Fái sveitarfélög fyrirspurnir um hvernig fólk eigi að bera sig að með dauða fugla þá eru eftirfarandi leiðbeiningar að finna á heimasíðu Matvælastofnunar:

Þegar villtur fugl finnst dauður, skal hafa samband við MAST, nema ef augljóst er að hann hafi drepist af slysförum. Best er að tilkynna um dauðan fugl með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar www.mast.is en líka er hægt að hringja í síma 5304800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. MAST metur hvort taka skuli sýni úr fuglinum.

Hræ skal látið liggja nema ef það er þannig staðsett að nauðsynlegt sé að fjarlægja það. Ef það er gert skal hræið sett í plastpoka, án þess að það sé snert með berum höndum. Lokað skal fyrir pokann og hann síðan settur í almennt rusl. Ef viðkomandi sveitarfélag býður uppá leið til förgunar lífræns úrgangs má setja hræið í niðurbrjótanlegum poka í söfnunarílát fyrir slíkan úrgang.

Meiri upplýsingar um fuglaflensu og ýmsar spurningar og svör er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar https://www.mast.is/is/baendur/lyfja-og-sjukdomaskraning/listi-yfir-sjukdoma-og-meindyr/fuglaflensa#

Ef einhverjar spurningar vakna, ekki hika við að hafa samband við starfsmenn Matvælastofnunar. Hægt er að beina erindum á tölvupóst á netfangið mast@mast.is eða hringja í síma 5304800 á opnunartíma.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón