A A A

Sýning á Bíldudal

Kalkþörungar úr Arnarfirði. Ljósm. MÞA
Kalkþörungar úr Arnarfirði. Ljósm. MÞA

Sýning Rögnu Róbertsdóttur og Hörpu Árnadóttur opnar á Bíldudal
 

FIRÐIR er heiti sýningaraðar Rögnu Róbertsdóttur og Hörpu Árnadóttur þar sem þær sýna saman ný verk sem verða til á ólíkum stöðum. Fyrsta sýningin opnar á Bíldudal í Arnarfirði um helgina.
 

Á Bíldudal verður sýnt í hinum sögufræga 110 ára Gamla skóla í hjarta bæjarins við hlið kirkjunnar. Á sýningunni má sjá hina sérstöku meðhöndlun á náttúruefnum sem Harpa og Ragna hafa tileinkað sér í verkum sínum. Þær notast báðar við kalkþörunga úr Arnarfirði, Ragna vinnur með þá heila í kórallaforminu og Harpa mylur þá í duft sem hún málar með. Þá notar Ragna einnig ýmsar skeljar, m.a. hinar smágerðu olnbogaskeljar sem finna má á sandströndum fjarðarins.  
 

Harpa og Ragna eru tvímælalaust einhverjir sterkustu listamenn sinna kynslóða hér á landi, kunnar fyrir skýra og sérstæða sýn. Þetta er í fyrsta sinn sem þær leiða saman hesta sína á sýningu og á vel við að samtarf þeirra hefjist í Arnarfirði. Báðar hafa taugar til fjarðarins, þar sem þær dvelja iðulega hluta ársins og tengjast náttúrunni og svæðinu sterkum böndum. Myndlist Rögnu og Hörpu á rætur að rekja í textíl annars vegar og málverki heins vegar og eru verk þeirra um margt skyld. Þær leita í ríkum mæli beint til náttúrunnar þaðan sem efniviður margra verka sprettur og eru verk þeirra afrakstur áralangra tilrauna. Í vinnuferlinu treysta þær á náttúrulega hegðun efnis til að fá fram ófyrirséðri útkomu innan afmarkaðs ramma. Þá treysta báðar á næma tilfinningu fyrir umhverfi og rými og ræður framsetning verkanna í sýningarsalnum ekki síður úrslitum um útkomuna en efnið sjálft.
 

Ragna Róbertsdóttir (fædd 1945) hefur m.a. haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Íslands og út hafa komið nokkrar sýningarskrár um verk hennar, einna helst Kynngikraftur árið 2004. Hún starfar með galleríum í Reykjavík og Berlín og hefur sýnt víða í Bandaríkjunum og Evrópu. Sjá nánar: http://www.i8.is
 

Harpa Árnadóttir (fædd 1965) Hefur m.a. haldið einkasýningar í Listasafni ASÍ og Nýlistasafninu og gefið út sýningarskrár og bókverk. Má sem dæmi nefna bókverkið Júní sem kom út 2011. Verk hennar eru víða í Norrænum söfnum en á Norðurlöndum hefur hún sýnt víða.
 

Sjá nánar: http://www.harpaarnadottir.com
 

 Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri, heldur utan um verkefnið sem er styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og Menningarráði Vestfjarða.
 

 Opnun sýningarinnar er á laugardag, 21. júlí, kl 15 og stendur hún til 12. ágúst. Opnunartímar eru kl 13:00 – 18:00 miðvikudaga til sunnudaga.
 

Næsta sýning í sýningaröðinni FIRÐIR er fyrirhuguð í Skagafirði.

Nánari upplýsingar veitir Markús Þór í síma 661 32 64 eða netfang markus@this.is 

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón