A A A

Mótmæla yfirgangi þingmanna

Tálknafjörður.
Tálknafjörður.

Hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps mótmælir yfirgangi einstakra þingmanna gagnvart sjálfræðisrétti og skipulagsvaldi sveitarfélaga í umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um þingsályktunartillögu um þjóðgarð við norðanverðan Breiðafjörð. Hreppsnefndin tekur undir bókun bæjaráðs Vesturbyggðar frá 29. mars þess efnis að slík framkoma gangi þvert á vilja stjórnvalda á sveitarstjórnarstigi sem og hjá framkvæmdavaldi að stunda samráð á öllum stigum. „Það er verið að leggja til þjóðgarð án nokkurs samráðs við sveitarfélögin og landeigendur sem eiga þarna land. Við erum að vinna að því að byggja upp þjóðgarð í Látrabjargi og að því koma allir hagsmunaraðilar, en sú ákvörðun er ekki sett með lögum frá Alþingi,“ segir Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps.

Mörður Árnason og Róbert Marshall, þingmenn Samfylkingarinnar,lögðu fram þingsályktunartillögu í mars um þjóðgarð við norðanverðan Breiðafjörð, á svæðinu milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar. Í greinargerð með tillögunni segir að undanteknum Hornströndum sé ekki mikið um náttúrufriðlönd á Vestfjarðakjálkanum og þar er engan þjóðgarð að finna.

Lagt er til að landsvæði þjóðgarðsins nái frá vestanverðum Þorskafirði um Djúpafjörð, Gufufjörð, Kollafjörð, Kvígindisfjörð, Skálmarfjörð, Vattarfjörð, Kerlingarfjörð, Mjóafjörð, Kjálkafjörð og Vatnsfjörð, þar sem þegar er friðland, og svo langt upp í dali og hálendi að norðan sem hæfa þykir. Um er að ræða suðurhluta hinna gömlu Gufudalssveitar og Múlasveitar, nú í Reykhólasveit sem nær yfir alla hina fornu Austur-Barðastrandarsýslu, og austasta hluta Barðastrandarhrepps gamla í vestursýslunni, nú í Vesturbyggð.

Bæjarráð Vesturbyggðar óskaði eftir því að Róbert og Mörður funduðu með íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum um tillöguna en að sögn Eyrúnar hafa þingmennirnir ekki orðið við þeirri beiðni. Mörður svaraði tölvupósti sem Vesturbyggð sendi á þingmennina en ekkert hefur heyrst frá Róberti. Þingsályktunartillagan stendur óbreytt og er til umsagnar í umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

„Ef tillagan verður samþykkt gæti það sett vegagerð á svæðinu í uppnám. Vegir um þjóðgarða eru ekki byggðir upp með hámarksöryggi í huga og hraða sem þjóðvegir hafa almennt. Það verður aldrei of oft undirstrikað að þetta er eini vegurinn til okkar og frá,“ segir Eyrún.

Frétt tekin af bb.is

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón