A A A

Láglendisvegur er eina lausnin

F.v.: Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Andrea Björnsdóttir, Ögmundur Jónasson og Ásthildur Sturludóttir.
F.v.: Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Andrea Björnsdóttir, Ögmundur Jónasson og Ásthildur Sturludóttir.

Fulltrúar sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum vilja einungis láglendisleið, þegar kemur að endurbótum á Vestfjarðavegi númer 60. Þeir leggja einnig áherslu á að ferjan Baldur hætti ekki að sigla yfir Breiðafjörð nema önnur ferja komi í staðinn.
 

Þær Andrea Björnsdóttir, oddviti Reykhólahrepps, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, hittu Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í dag og ræddu við hann um samgöngumál svæðisins. Sveitarfélögin eru við norðanverðan Breiðafjörð og ná allt frá Gilsfjarðarbrú að Dynjandisheiði.
 

„Við óskuðum eftir fundinum til að ræða við ráðherrann um samgöngumál á sunnanverðum Vestfjörðum,“ sagði Ásthildur. Fulltrúar sveitarfélaganna óskuðu eftir því að áfram yrði unnið að lausn varðandi Vestfjarðaveg númer 60.
 

Ásthildur sagði að fundurinn hefði verið góður og að fram hefði komið gagnkvæmur skilningur á málum. Hún kvaðst binda vonir við að sameiginleg niðurstaða næðist.
 

„Við munum sjá til þess að þetta sofni ekki,“ sagði Ásthildur um samgöngumálin. „Við lýstum því yfir við ráðherrann að við vildum bara láglendisleið og það er fullur skilningur á því.“

Láglendisleiðin getur hvort sem er falist í göngum gegnum fjöll og hálsa eða brúm og þverun fjarða, að sögn Ásthildar. Hún sagði að ráðherrann ætti næsta útspil í málinu.

„Við ræddum líka Baldur en það hefur verið mikið rætt að hann taki við hlutverki Herjólfs. Það kom alveg skýrt fram á fundinum í dag með ráðherra og eins í samtölum við forsvarsmenn Sæferða og vegamálastjóra að það er ekkert slíkt á döfinni fyrr en það er komið skip sem þjónar okkar ferðum,“ sagði Ásthildur.

„Við munum aldrei sætta okkur við að Baldur verði tekinn frá okkur nema önnur lausn komi í staðinn.“

         frétt tekin af: mbl.is

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón