A A A

Fögnum ákvörðum Reykhólahrepps um Þ-H leið

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur ákveðið að setja Þ-H leið Vestfjarðavegar um Gufudalssveit í skipulagsferli og hefur þar með áréttað fyrri ákvörðun sem sveitarstjórnin tók í mars á nýliðnu ári en að fengnum enn frekari rökum og eftir ítarlega skoðun á öðrum valkostum. Aðrir íbúar Vestfjarðakjálkans geta nú andað léttar og sjá fram á bjartari tíma. Þetta hefur verið erfitt ferli, bæði innan og utan sveitar en niðurstaðan liggur fyrir og nú getum við Vestfirðingar aftur tekið höndum saman um uppbyggingu og glæsta framtíð Vestfjarða.

 

Nú þegar ákvörðun skipulagsyfirvalda í Reykhólahreppi um að fara Þ-H leiðina liggur fyrir, hlýtur það að vera krafa Vestfirðinga að ekki verði frekari dráttur á að framkvæmdir hefjist, enda er gert ráð fyrir fjármagni til vegalagningarinnar í drögum að samgönguáætlun fyrir árið 2019. Því treystum við á að Alþingi og samgönguyfirvöld láti hendur standa fram úr ermum og endi þessa löngu bið okkar eftir langþráðum úrbótum í samgöngumálum.

 

Þegar sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti með fjórum atkvæðum gegn einu að gera breytingu á aðalskipulagi sveitgarfélagsins og velja Þ-H leið þann 8. mars á nýliðnu ári var sú ákvörðun tekin með víðtæk rök í farteskinu og eftir mikla undirbúningsvinnu.

 

Í fundargerð þáverandi sveitarstjórnar Reykhólahrepps var bent á að beðið hefur verið eftir samgöngubótum í a.m.k. 15 ár og að þörfin á þeim væri orðin svo brýn að ekki verði unað við lengri bið. Loks þegar jákvæð teikn væru um byggðaþróun og atvinnuþróun í landsfjórðungnum, væri mikilvægt að nýta þau og styðja. Þessu erum við sammála og tökum undir það mat þáverandi og núverandi sveitarstjórna Reykhólahrepps að ráðast þarf strax í samgöngubætur til að auka umferðaröryggi, greiðfærni og stytta leiðir. Það eru brýnir almannahagsmunir að bæta samgöngur á svæðinu og það viðfangsefni snýr ekki eingöngu að hagsmunum Reykhólahrepps eða sunnanverðra Vestfjarða heldur tekur það til Vestfjarða allra. Því fögnum við ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps að setja Þ-H leið í skipulagsferli og flýta þar með fyrir þeim samgöngubótum sem samfélagið hefur þurft að bíða eftir allt of lengi

 

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón