A A A

Fjárhagsáætlun 2022 samþykkt

Fjárhagsáætlun ársins 2022 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2023-2025 var samþykkt samhljóða í síðari umræðu á 583. fundi sveitarstjórnar sem fór fram 15. desember 2021.

 

Í fjárhagsáætlun Tálknafjarðarhrepps fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun áranna 2023-2025 er gert ráð fyrir því að standa vörð um þá þjónustu sem íbúum á Tálknafirði er veitt um leið og ráðist er í nauðsynlegar framkvæmdir. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árin 2022-2025 var unnið út frá ýmsum forsendum, svo sem hagspám, áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga um útsvarstekjur, fasteignamati og áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.Í forsendum fjárhagsáætlunar er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrri árum, eða 14,52% og álagningahlutfall fasteignagjalda er óbreytt frá fyrra ári. Ýmsir rekstrarliðir sem ráðast af ytri þáttum eru hækkaðir til samræmis við spár um verðlagsbreytingar en aðrir eru lækkaðir um 2,5%. Í þjónustugjaldskrám er gert ráð fyrir hækkun sem nemur 2,5% á flestum liðum.

Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 397,4 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði neikvæð um 0,6 mkr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða neikvæð, þannig að rekstrarhalli samstæðu A og B hluta er áætlaður 54,3, mkr. Gert er ráð fyrir langtíma lántöku til að mæta fjárþörf. Sú þörf mun þó minnka ef tekst að selja þær fasteignir sem þegar hafa verið settar á sölu. Þá ber að geta þess að Alþingi hefur samþykkt að víkja fjármálareglum sveitarfélaga til hliðar til og með ársins 2025, en gert er ráð fyrir að þær taki á ný gildi árið 2026. Það er upplýst ákvörðun sveitarstjórnar að fara í framkvæmdir og auka skuldsetningu frekar en að fara inn í sameiningarviðræður á næstu árum með mikla framkvæmdaþörf.

Áhersla er lögð á að þjónustustig sveitarfélagsins verði ekki skert og að ráðist verði í nauðsynlegar fjárfestingar á vegum sveitarfélagsins. Það er þó ljóst að rekstur ársins 2022 verður þungur og því mikilvægt að gæta aðhalds í öllum aðgerðum. Ýmislegt hjá sveitarfélaginu þarf að taka til skoðunar með það að markmiði að ná fram bættum rekstrarárangri en um leið að tryggja að sveitarfélagið geti sinnt þeim verkefnum sem því ber.

Gert er ráð fyrir töluverðum fjárfestingum á vegum Tálknafjarðarhrepps á árinu 2022. Samtals er áætlað að fjárfesting sveitarfélagsins nemi 140 mkr. og er gert ráð fyrir lántöku til að mæta fjárþörf vegna hennar. Gert er ráð fyrir að skuldaviðmiðið 2022 samkvæmt reglugerð 502/2012 verði í árslok 141,7% sem er undir því 150% hámarki sem er skilgreint í sveitarstjórnarlögum. Áætlað er að handbært fé í árslok 2022 verði 4,9 mkr. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir fjárfestingarverkefni ársins 2022.

a) Viðhaldsframkvæmdir og malbikun á íbúagötum í þéttbýli.
60 milljónir kr.
Íbúagötur á Tálknafirði eru langsveltar af viðhaldi og ekki hægt að fresta lengur að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að koma þeim í ásættanlegt horf. Gert er ráð fyrir að í upphafi árs verði framkvæmdaáætlun sem var unnin árið 2019 tekin upp og endurunnin. Áhersla verður lögð á að sem mestur hluti gatna verði malbikaðar en í staðinn dregið úr áætlunum um endurnýjun lagna.

b) Hlutur sveitarfélagsins í uppbyggingu Strandgötunnar.
30 milljónir kr.
Samkvæmt samningi við Vegagerðina um uppbyggingu og skil á þjóðvegi í þéttbýli. Um leið og gatan sjálf verður byggð upp og malbikuð verða gangstéttar endurbyggðar að hluta ásamt götulýsingu, byggð upp grjótvörn þar sem vegurinn liggur með sjó, gengið frá tengingu göngustígs yfir Hólsá og sett handrið á brúnna yfir ánna.

c) Kostnaður við breytingar á Nýjabæ.
10 milljónir kr.
Framkvæmdir við Nýjabæ verða kláraðar á árinu þannig að félagsstarf eldri borgara flytjist í húsið haustið 2022. Jafnframt munu slökkviliðsstöð og áhaldahús hafa vistaskipti og þannig unnið í átt að bættu starfsumhverfis slökkviliðs.

d) Endurnýjun á rennibraut við sundlaug.
10 milljónir kr.
Nauðsynlegt er að endurnýja ónýta rennibraut við sundlaugina.

e) Kostnaðarþátttaka vegna byggingar þjónustuíbúða.
20 milljónir kr.
Hafist verði handa við að stofna félag sem stendur að byggingu smárra íbúða á Tálknafirði sem geta nýst sem þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara, í samræmi við stofnframlag frá ríkinu. Gert er ráð fyrir að nýta tilbúnar lóðir í þéttbýli undir slík hús.

f) Framkvæmdir við Tálknafjarðarhöfn.
5 milljónir kr.
Gengið verður frá hönnun og undirbúningi framkvæmda við Tálknafjarðarhöfn í samstarfi við Vegagerðina.

g) Ýmis smærri verkefni.
5 milljónir kr.
Undir þennan lið falla ýmis smærri verkefni sem gera má ráð fyrir að þurfi að fara í á árinu, svo sem í tengslum við undirbúning vegna virkjunar Hólsár, endurhönnun á lögnum og frágangi sundlaugar og viðhaldi eigna.
Samtals 140 milljónir kr.
Að auki verði sótt um styrk í Fiskeldissjóð til að standa straum af kostnaði við nauðsynlegar framkvæmdar við gatnakerfi og umhverfi á hafnarsvæði. Það verkefni fer þó ekki af stað nema til komi fjárveiting komi frá Fiskeldissjóði.



Tálknafjarðarhreppur Fjárhagsáætlun 2022 - 2025 (.pdf)

Greinargerd með fjárhagsáætlun Tálknafjarðarhrepps 2022 – 2025 (.pdf)


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón