A A A

Fjarðalax á góðri siglingu

1 af 3

Fjarðalax ehf, sem stundar laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum, mun í sumar setja þriðju kynslóð laxaseiða sinna í sjó í Patreksfirði.  Um er að ræða stærstu kynslóð fyrirtækisins hingað til, 800-900.000 seiði.  Nú er unnið að slátrun fyrstu kynslóðar fyrirtækisins en hún hefur verið alin í Tálknafirði frá miðju ári 2010.  Önnur kynslóðin dafnar mjög vel í Arnarfirði og verður hafist handa við slátrun úr henni seinna á þessu ári.  Hjá Fjarðalax starfa nú 30 manns en gert er ráð fyrir fjölgun með auknum umsvifum og að síðla næsta árs verði þeir allt að 60.
 

Fjárfest á Patreksfirði

Fjarðalax  vinnur nú að gerð nýrrar starfsstöðvar á Patreksfirði.  Unnið er að uppsetningu fóðurstöðvar í landi þar sem fóðri verður dælt út í sjókvíar með tölvustýrðu fóðurkerfi með sama hætti og gert er í stöðinni í Arnarfirði.  Í undirbúningi er lagning rafmagns á staðina í samvinnu við Orkubú Vestfjarða.  Þetta er mikilvægt skref fyrir Fjarðalax þar sem notkun endurnýtanlegrar raforku Íslands er stór þáttur í ímynd fyrirtækisins. Víst er að margir aðrir aðilar á svæðunum munu njóta þessarar framkvæmdar.
 

Brautryðjandi í kynslóða- og svæðaskiptu laxeldi

Fjarðalax styðst við nýtt eldismódel sem byggir á eldi í þremur aðskildum fjörðum, með drjúgan hvíldartíma á hverju svæði á milli hverrar kynslóðar.  Einungis þannig er hægt að nánast útiloka óæskileg áhrif á náttúru og lífríki fjarðanna sem um ræðir og draga úr líkum á sýkingum í eldislaxi og lúsagengd.  Fái hver fjörður hvíld á milli kynslóða er ekki ástæða til að óttast áhrif eldisins á lífríki þeirra. Hér fer hagur náttúrunnar og fyrirtækjanna í sjókvíaeldi saman. 
 

Lært af mistökum nágranna okkar

Sem betur fer hafa stjórnvöld á Íslandi áttað sig á mikilvægi þessara nýju starfshátta og horft til reynslu nágrannaþjóða okkar sem reyndari eru í sjókvíaeldi.  Bæði Norðmenn og Færeyingar reyna nú að haga málum með þessum hætti enda hafa þessar þjóðir brennt sig illa á því að heimila mörgum sjókvíastöðvum að starfa þétt saman.  Í Harðangursfirði í Noregi er nú til að mynda verið að leita leiða til að fækka eldisstöðvum og eru störf 800 manna í hættu vegna þessa.  Að heimila ótengdum fyrirtækjum í sjókvíaeldi laxfiska að starfa saman í einu og sama straumvatninu væri því gáleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda og gæti valdið þessari vaxandi útflutningsgrein miklu tjóni, sem og náttúrunni.   Í þessari umræðu hefur Landssamband Fiskeldisstöðva beitt sér ötullega og haldið á lofti hinum skynsömu sjónarmiðum kynslóðaskipts eldis.  Þá er þáttur fremstu vísindamanna þjóðarinnar á þessu sviði stór en þar eru um að ræða Hafrannsóknastofnunina og Yfirdýralækni Fiskisjúkdóma.  Í þessari atvinnugrein er vísindunum gert hátt undir höfði og þessar stofnanir hafa mikið vald við útfærslu regluverksins.  Það er til eftirbreytni og ber að lofa.   Íslensk stjórnvöld hafa nú gert Fjarðalaxi kleift að skipuleggja eldi sitt með þessum skynsamlega hætti og hefur fyrirtækið nú yfir að ráða rekstrarleyfum til 1500 tonna ársframleiðslu í hverjum firði fyrir sig.   Langtímamarkmið fyrirtækisins gera ráð fyrir allt að 10.000 tonna ársframleiðslu árið 2017, fáist til þess leyfi. Með þau markmið í huga undirbýr Fjarðalax uppsetningu starfsstöðva á Patreksfirði, við Bauluhús í Arnarfirði, auk stækkunar og endurbóta við Fossfjörð.
 

Vottað eldi eftir ströngustu kröfum

Framleiðsla Fjarðalax er vottuð af alþjóðlegu vottunarfélagi (imo.ch) sem „náttúrulega alin“ sjávarafurð.  Þetta þýðir að fyrirtækið nær að selja allar sínar afurðir til verslunarkeðja í Bandaríkjunum sem sérhæfa sig í umhverfisvænum vörum.  Kaupendur þessir greiða hærra verð en aðrir og gera miklar kröfur til framleiðenda.  Um þessar mundir er offramboð á laxi í heiminum og margir framleiðendur í nágrannalöndum okkar selja afurðir sínar á verðum sem eru undir framleiðsluverði þeirra.  Á sama tíma fá þeir sem geta framleitt vottaða vöru hærra verð og það skiptir sköpum.  Það ætti að vera markmið íslenskra matvælaframleiðenda að gera betur en aðrir á þessu sviði og færa sér í nyt hreinasta vatn í heimi, ómengað haf og ódýra endurnýtanlega raforku.  Þessir þættir þurfa að vega upp háan flutningskostnað og gera íslenskar afurðir eftirsóttar umfram aðrar.  Fjarðalax ehf er einn örfárra laxaframleiðenda í heiminum sem getur framleitt þessa sérstöku vöru nú og hefur mjög gott aðgengi inn á eftirsótta markaði í Bandaríkjunum í gegnum systurfélag sitt í New Jersey.  Þar eru afurðir fyrirtækisins nú seldar undir vörumerkinu Arctic Salmon (arcticsalmon.is).  Þess ber að geta að vottunarfélagið horfði mjög til hins kynslóðaskipta eldismódels Fjarðalax í vottunarferlinu og er mikilvægi þess því ótvírætt.  Skiptir því sköpum fyrir Fjarðalax að stjórnvöld standi með skynsamri eldisstefnu og stefni ekki eldismódeli fyrirtækisins í hættu með því að veita önnur laxeldisleyfi á sömu svæðum. Slíkt væri skref afturábak í þróun atvinnugreinarinnar og afturhvarf til starfshátta sem nágrannalönd okkar eru nú óðum að kasta fyrir róða.  Ekki er heldur ástæða til, nóg er af ónýttum svæðum til sjókvíaeldis við Íslandsstrendur.

 

Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri Fjarðalax:

Höskuldur Steinarsson
hoskuldur@fjardalax.is
S: 699-2691

 

 

 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón